Landslag og hljóðmyndir heitir fræðsluverkefni Skaftfells veturinn 2017-2018 og hverfist um útilstaverkið „Tvísöng“ á Seyðisfirði sem er eftir þýska listamanninn Lukas Kühne. Á þessu ári eru einmitt fimm ár síðan hljóðskúlptúrinn var afhjúpaður og hefur hann allar götur síðan hlotið góðar viðtökur, bæði af heimamönnum og erlendum gestum. Það er því ekki úr vegi að kynna þennan gagnvirka hljóðskúlptúr nánar fyrir ungum íbúum Austurlands.
Í listsmiðjunni sem fer fram í september munu nemendur rannsaka virkni hljóðs og náttúrunnar. Meðal þeirra hugtaka sem verða skoðuð eru form, rými, endurvarp og skynjun. Sveiflumyndun hljóðs myndar oft samhverft sjónrænt munstur, líkt og við sjáum svo oft í náttúrunni t.d. eins og í gárum á vatnsyfirborði. Skoðað verður hvernig ólík hljóð umhverfis okkur hafa áhrif á okkur og hvernig við sjáum og upplifum þau sem form og teikningar.
Umgjörð smiðjunnar verður með því sniði að nemendur ferðast til Seyðisfjarðar, skoða og upplifa Tvísöng og vinna í kjölfarið verkefni undir handleiðslu leiðbeinanda. Einnig fengu nemendur leiðsögn um sýninguna Jaðaráhrif í sýningarsal Skaftfells en sú sýning samanstóð af verkum þriggja listamanna, Kati Gausmann (DE), Ráðhildar Ingadóttur og Richard Skelton (UK). Meginþema sýningarinnar var vistfræði í sínu víðasta samhengi og fengu nemendur að kynnast ólíkum vistkerfum, hvernig þau hafa áhrif á hvort annað og síðast en ekki síst nálgun listamannanna á þetta viðamikla viðfangsefni. Í leiðsögninni var rætt um allt milli himins og jarðar, t.d. dýr í útrýmingarhættu, jarðfræði, sjálfsþurftarbúskap og nútíma lifnaðarhætti.
Að listsmiðjunni standa myndlistarkonurnar Guðrún Benónýsdóttir og Guðný Rúnarsdóttir. Þær eru báðar útskrifaðar úr meistaranámi listkennsludeildar og hafa góða reynslu í listkennslu barna. Guðný er deildarfulltrúi listkennsludeildar LHí en Guðrún starfar sjálfstætt sem myndlistarkona og er eigandi útgáfufyrirtækis ´uns sem leggur áherslu á bókverk, fjölfeldi og listkennslufræðilega tengt efni.
Frá árinu 2007 hefur Skaftfell sent út af örkinni fræðsluverkefni þar sem öllum grunnskólum á Austurlandi er boðin þátttaka þeim að kostnaðarlausu. Fræðsluverkefnin eru með ólíku sniði hverju sinni en ávallt með áherslu á myndlist.
Fræðsluverkefnið í ár var styrkt af Uppbyggingarsjóði Austurlands og Samfélagssjóði Alcoa.
Hreyfimynd eftir Oliver McIntyre, www.olivermcintyre.co.uk/tvisongur
Ljósmynd af Tvísöng: Goddur