Vesturveggur gallerí, Skaftfell Bistró, 17. júni – 1. júlí 2020.
Um langt skeið hefur gestum í Bistrói Skaftfells boðist að teikna og skrifa á A4 blöð og skilja eftir. Einu sinni á ári er bunkinn svo bundinn inn í bók. Vegna aðstæðna sem sköpuðust vegna Covid-19 bauð Skaftfell öllum á Seyðisfirði og víðar að senda inn teikningar sem gerðar voru þegar setja þurfti almenningi reglur um samskiptabann og sóttkví. Þessar teikningar gátu verið afsprengi þeirra tilfinninga og þanka sem spruttu fram á þessu undarlega tímabili sem við þurftum öll að ganga í gegnum.
Eftir afléttingu samkomubanns er gaman að geta sett upp sýningu á þeim teikningum sem bárust. Í kjölfarið munum við binda þær inn í næsta samansafn teikninga frá Bistróinu. Bókin verður aðgengileg í bókasafni Skaftfells í Bistróinu.
Við þökkum kærlega fyrir magnaðar „sóttkvíar“ teikningar sem til okkur bárust!
Ef þú hefur enn áhuga á að bæta við teikningu í safnið er þér velkomið að skilja hana eftir í hvíta söfnunarkassanum undir tröppunum í bistróinu.