Opnar 25. september kl. 16:00-18:00 í sýningarsalnum
Leiðsögn fer fram sunnudaginn 26. september kl. 14:00
Sýningin stendur til 21. nóvember 2021. Opnunartími mán-fös kl. 12-18, lau-sun kl. 16-18.
Aðgangur í gegnum bistróið á fyrstu hæð.
Sýningin Slóð er samsýning myndlistarmannanna Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur og Karlottu Blöndal. Verkin vinna þær í sitt hvoru lagi en vísa báðar í fornleifafundinn á Vestdalsheiði árið 2004 sem samanstóð af mannabeinum, skartgripum og glerperlum og er talinn vera frá miðri tíundu öld. Anna Júlía vinnur einnig með fjarskiptatækni sem hefur tengingu við tæknisögu Seyðisfjarðar.
Í verkum Önnu Júlíu berast ávörp úr fortíð og inn í nútíð og milli manns og náttúru. Þeim er ætlað að berast á milli tveggja heima en flakka í rauninni á milli óravídda. Bæði efniviður og framsetning verka Önnu Júlíu tvinna saman staðbundna menningarsögu og heimspekilegar vangaveltur um skilaboð sem ferðast fram og aftur í tíma. Koparplötum er raðað upp í Morse-kóða sem stafar fjarskiptamerkið QSB sem er Q-mál og merkir “Are my signals fading” (ísl. „Hafa merki mín dofnað“). Plöturnar eru þurrnálristur af klettum og fjallshlutum umhverfis Seyðisfjörð. Í öðru verki eru perlur þræddar á koparvír og stafa orðið „Slóð“ í Morse-kóða. Koparinn hefur áþreifanlegar og huglægar tilvísanir í boðskipti og þjónar sem eins konar milliliður áhorfanda og óræðs viðtakanda. Í þunnu pappírstjaldi sem hangir úr loftinu er setningin „Snjóaði í logni við og við í gær“ götuð í pappírinn með aðferð gataborðanna sem notaðir voru við flutning skeyta í gamla ritsímanum. Skilaboðin er fengin úr veðurskýrslu frá Seyðisfirði frá 1952.
Verk Karlottu hverfast um fjallkonuna sjálfa og fundarstað munanna. Hún kannaði staðinn nokkrum sinnum í sumar og vann þar verk undir berum himni í tilraun til að fanga umhverfið og stemninguna á svæðinu. Við túlkun sína og skrásetningu vann hún undir formerkjum og aðferðafræði myndlistar en til hliðsjónar nýtti hún sér rannsóknir Rannveigar Þórhallsdóttur fornleifafræðings sem skrifaði um fundinn í meistararitgerð sinni. Skrásetningin af svæðinu er í formi verka sem eru annars vegar abstrakt og hins vegar raunsæisleg teikning í anda ferðabóka 18. aldar. Form abstrakt verkanna á striga eru sótt í skipulagsteikningu fornleifafræðinganna af staðnum og er áferðin fengin með snerti þrykki. Litirnir vísa til hinna marglitu perla sem fundust þar. Með verkinu yfirfærir Karlotta staðinn inn í sýningarrými Skaftfells. Auk þess vinnur hún með getgátur um hver fjallkonan og örlög hennar hafi mögulega verið og varpar þannig fram vangaveltum um bæði meðvituð og ómeðvituð viðhorf okkar gagnvart túlkun okkar á horfnum tíma.
Úrvinnsla og framsetning á verkum Karlottu og Önnu Júlíu opnar á hugleiðingar um tíma og rúm sem þær þræða sig í gegnum og skapa með útkomu sinni vettvang þar sem nútími og fortíð mætast. Á hvaða leið voruð þið og á hvaða leið erum við? Við tökum við endanum á þræðinum og leiðum hann áfram.
Við viljum þakka Rannveigu Þórhallsdóttur, fornleifafræðingi, Zuhaitz Akizu, forstöðumanni Tækniminjasafns Austurlands, Pétri Kristjánssyni, fyrrum forstöðumanni Tækniminjasafns Austurlands, Jóhanni Grétari Einarssyni, fyrrum starfsmanni gömlu ritsímastöðvarinnar á Seyðisfirði, og Veðurstofu Íslands kærlega fyrir upplýsingagjöf við undirbúning sýningarinnar.
Það sem að við höldum að hafi gerst.
Slóð / Trace, Skaftfell
Texti eftir Starkað Sigurðarson
Samskipti byrjuðu sem einföld skilaboð. Brosa, gretta, kinka kolli, hrista haus, hægri, vinstri, þú, ég, af, á. Við þurftum að vera nálægt hvor öðru; ég gat sagt eitthvað við þig og síðan þú eitthvað við mig. Svo fórum við að útfæra flóknari boð og síðan boð sem náðu yfir okkar löngu vegalengdir. En þó tungumálið yrði stærra og nákvæmara og samskipti dýpri þá vitum við líka að skilaboð, tungumál, samskipti eru ófullkomin, óljós, það er hægt að misskilja, túlka skakkt. Og vitandi það þá færist ábyrgðin frá tungumálinu til þeirra sem færa skilaboðin á milli – til þess sem sendir út skilaboðið og til þess sem tekur við þeim. Eru þessi skilaboð fyrir mig? Er verið að segja mér þetta, eða þetta? Skil ég þetta rétt? Er þetta sem ég fann – lík, perlur, hnífur, í hellisskúta uppi á heiði – að segja mér eitthvað? Er það mitt að svara?
Tíminn er alltaf hluti af samskiptaboðum öllum; samskipti eiga sér stað í gegnum tíma. Tíminn getur líka bjagað skilaboð, slitið þau, alveg eins og tíminn getur geymt slóða og borið eitthvað ótrúlegt. Svo ótrúlegt stundum að ekki er augljóst hvað það er sem við sjáum fyrir framan okkur eða hverju á um það að trúa. Áminning um að það sem við vitum er að við getum ekki vitað allt fyrir víst. Getum ekki vitað alveg hvað er verið að segja okkur. Og við það opnast á eitthvað, allt verður svo sem mögulegt. Sem er kannski ógnvekjandi en er líka hversdagslegt, venjulegt. Þegar möguleikarnir eru margir þá þurfum við að túlka og giska. Eins og við giskum um veðrið eða áttir eða þegar við skynjum að þögnin í jarðarför þýðir eitthvað eða í samskiptum við einhvern sem maður elskar. Þagnirnar eins mikilvægar auðvitað og hljóðin eða hreyfingarnar, þagnirnar í morskóðuðu skilaboði jafnt og pípin, etc.
Og þannig giskum við hér: Hvað væri ég að gera uppi á heiði? Hverju trúi ég um framtíðina? Af hverju væri ég með perlur? Allar þessar perlur og hníf? Ung manneskja uppi á heiði. Að finna mér skjól til þess að deyja eða til þess að lifa af? Rétt áður en þú hverfur í 1000 ár. Það finnast þó ekki allir aftur.
Það eru endalausar spurningar. Er þetta um sumar eða vetur? Ertu lifandi á þínum eigin fótum eða ertu dáinn og einhver heldur á þér? Kannski ertu völva sem spáir fram í tímann og sérð dauða þinn fyrir – eða giskar allavegana til um hann. Kannski ertu þjófur sem tókst perlurnar, hlaupst á brott, en náðir ekki nógu langt. Síðustu orðin? Ég veit það ekki.
Ef við erum að giska þá getur allt verið tungumál, merking, samskipti. En að giska er það sem við gerum, getum ekki nema. Og jafnvel þó að við ímyndum okkur að það sem við, með okkar bestu getu, höfum giskað á, að það sem að við höldum að hafi gerst, sé rétt, þá vitum við að það fæst aldrei alveg staðfest. Við eigum eftir að giska annað í dag heldur en á morgun. Þú átt eftir að giska annað en ég. Ef til vill giskum við betur í dag með öðruvísi tólum og öðruvísi samfélagi heldur en þegar lík eða leirpottur eða málverk fannst fyrir 100 eða 1000 árum. Og kannski einhvern tímann munum við vita allt um þetta allt og getum átt samskipti án efa en í dag þurfum við ennþá að elska að horfa og hugsa og giska.
Kannski er þá skilaboðið hér, merkingin, að við fundum þessa manneskju aftur. Kannski væri manneskjan þakklát fyrir það. Að þessi manneskja getur sagt núna, sjáðu þetta, hérna, það sem ég er með. Perlurnar ennþá fallegar. Skúti ennþá skjól.
Anna Júlía Friðbjörnsdóttir (f. 1973) býr og starfar í Reykjavík. Hún vinnur þvert á miðla og skoðar mengið á milli vísinda og menningar í verkum sem taka mið af samtíma og sögulegum málefnum. Hún lauk MA gráðu frá Manchester School of Arts, Manchester Metropolitan University, 2004 og BA Fine Art (Hons) gráðu frá London Guildhall University 1998. Áður stundaði hún nám við Myndlista og handíðaskóla Íslands 1993-95. Anna Júlía starfaði sem verkefna- og sýningarstjóri í i8 gallerí 2008-2015 og var meðstofnandi og ritstjóri myndlistartímaritsins Sjónauka sem var gefið út á árunum 2007-2009. Hún hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og haldið fjórar einkasýningar á Íslandi en hún var tilnefnd til Íslensku myndlistarverðlaunanna 2018 fyrir sýninguna Erindi í Hafnarborg.
Karlotta Blöndal (f. 1973) býr og starfar í Reykjavík. Hún vinnur í mismunandi miðlum, allt frá teikningu, málun, útgáfu, umhverfisverka og gjörninga. Verk hennar kanna mörk og blöndun vídda, þess andlega og efnislega, þess er tengist skynjunum og þess fræðilega. Oft er ákveðinn staður viðfangsefni verkanna, þau eru gjarnan gjörningatengd og fela í sér þátttöku af einhverju tagi. Karlotta lauk MA gráðu frá Konsthögskolan i Malmö, 2002 og BA gráðu frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands, 1997. Auk þess að vera starfandi myndlistarmaður tekur hún reglulega þátt í listamannareknum verkefnum. Hún hefur bæði ritstýrt og verið meðútgefandi tímaritsins Sjónauka (tímarit um myndlist og fræði) og kemur reglulega að myndlistarkennslu. Hún er meðlimur í þverfaglega samstarfinu Könnunarleiðangurinn á Töfrafjallið, 2013-2020.