Ásgeir Emilsson fyrir framan heimili sitt. Ljósm. Sigurgeir Sigurjónsson
- Til að skoða Geirahús þarf að panta einkaleiðsögn, skaftfell@old.skaftfell.is eða í síma 472 1632. Verð er 2500 kr., hámark 5 manns.
Ásgeir Jón Emilsson (1931-1999)
Ásgeir Emilsson eða Geiri eins og hann var kallaður var litríkur karakter og listamaður af Guðs náð. Hann hafði óbilandi sköpunarþörf og ber heimili hans þess sterk merki. Heimili Geira hefur verið haldið í nánast óbreyttu horfi frá andláti hans og þar má sjá hvernig hann lifði og við hvað hann fékkst í listsköpun sinni.
Geirahús er í eigu og umsjá Skaftfells. Endurbætur og varðveisla eru í fullum gangi og öll framlög til varðveislu heimilis og minningar Geira eru því vel þegin.
Æviágrip
Ásgeir Jón Emilsson, Geiri, fæddist 1931 að Hátúni við Seyðisfjörð, yngstur tólf systkina. Geiri bjó alla sína ævi á Seyðisfirði. Hann stundaði sjómennsku framan af ævinni, fór á vertíð vítt og breitt um landið en lengst af og til starfsloka starfaði hann við fiskvinnslu á Seyðisfirði. Þrátt fyrir að vera einfari var hann ávallt vinamargur og hrifust menn af persónutöfum hans, einlægni og umhyggju fyrir lítilmagnanum. Hann var alla tíð heyrnaskertur, en lét fötlun sína ekki aftra sér þrátt fyrir ógætileg viðbrögð þeirra sem rangtúlkuðu málfar hans og skringilegheit. Geiri var litríkur karakter og listamaður af Guðs náð. Hann fékk ekkert formlegt listuppeldi en hafði þó frá unga aldri áhuga á því að skapa með höndunum. Verk hans bera merki um natni og listfengi og eru afleiðing óstöðvandi sköpunarþarfar. Geiri var sannkallaður alþýðulistamaður. Síðustu 20 ár ævi sinnar bjó hann í litlu húsi við Oddagötu á Seyðisfirði. Þar vann hann að listsköpun sinni og má með sanni segja að líf hans og list hafi verið eitt. Hvert sem litið er á heimili hans má sjá handbragð listamannsins og þekkja þau mótíf sem hann fékkst við í tví- og þrívíðum verkum sínum. Þrívíð verk úr dósum, rammar úr sígarettupökkum, málverk með síendurteknum mótífum og mikill fjöldi ljósmynda sem bera merki um óvenjulegt sjónarhorn listamannsins, eru burðarásinn í ævistarfi Geira. Heimili hans var í raun heimur út af fyrir sig og hann kóngur í ríki sínu. Þar stóðu allir jafnfætis, kötturinn Lóli, gestirnir og hann sjálfur. Sýslumaðurinn, skattstjórinn, smekkstjórarnir og yfirvöld flest, nema auðvitað Vigdís forseti, tilheyrðu annarri vídd sem naut ekki viðurkenningar í Geirahúsi.
Alþýðulistamaðurinn Ásgeir Emilsson lést árið 1999, þá 68 ára að aldri. Eftir hann liggur mikill fjöldi verka sem hann ýmist gaf eða seldi svo varla er það heimili á Seyðisfirði og nágrenni að ekki megi finna þar verk eftir Geira. Stærsti minnisvarðinn um þennan einstaka listamann er þó heimili hans, en þar er nú rekið safn á vegum Skaftfells – miðstöðvar myndlistar á Austurlandi.
Pétur Kristjánsson
Hrekkleysi hugans
Eftir Níels Hafstein listamann og safnstjóri Safnasafnsins
Þegar fullþroska maður finnur fyrir þörf til að skapa eitthvað sérstætt, virkja ímyndunarafl sitt og tjáningargleði, þá á hann aðeins um eitt að velja: Að vitja upprunans, ljúka upp dyrum að bernsku sinni til að hefjast handa þar sem frá var horfið: Að skapa fyrir sjálfan sig. Hann hugar fyrst og fremst að mynd og efni hennar, hvernig það tengist minningum og atburðum líðandi stundar. Í verkunum birtist daglegt stúss, tilvísun í þjóðsögur og sagnir, liðnir búskaparhættir, ævintýri, goðsögnin. En þegar erfiðleikar steðja að, þá breytist framsetningin, verður jafnvel hamslaus og ofsafengin, krefjandi, ögrandi, eins og listamaðurinn eigi líf sitt undir því að heimurinn fylgist grannt með. Stundum nálgast verkin siðfræðilegar spurningar, jafnvel stjórnmál og háspeki.
Alþýðulist er í fyrra fallinu heillandi tímalaus nema eitthvað sérstakt komi til, hins vegar harmsaga í einhverri mynd, andnauð í þrengslum og yfirþyrmandi einsemd; hún breytist þó ekki í innsta eðli sínu, sem er þörfin til að skapa.
Alþýðulistin ljómar í hellnamálverkum og ristum sem gerðar voru fyrir þúsundum ára, síðan í mannkynssögunni allri. Hún er fjölbreytt, sérstök, þróast sjaldan, tekur stundum hliðarspor, en fellur aldrei undir stíl eða skóla í ströngum skilningi nútímalistarinnar.
Alþýðulistarmaðurinn leggur oft áherslu á að ná fyrirmynd sinni, hvort heldur hún stendur andspænis honum eða lifir í minni, en það leiðir af sjálfu sér að líkingin verður aldrei fullkomin, það er eins og maðurinn horfi í gegnum matt gler eða grisju, og þar kviknar undrið: Uppljúkast dyr að töfraveröld sem vekur fögnuð og hamingju í brjósti þess sem skoðar, því nú stendur hann allt í einu andspænis horfinni bernsku sinni.
Ásgeir Emilsson er dæmi um alþýðulistarmann sem er hvort tveggja í senn: Innhverfur og úthverfur; hann leitar í skjól með þau viðfangsefni sem snerta kvikuna, barnslegt hjartalag og sértæka reynslu, þar sem hann getur unnið í friði við sköpunarverk sín. Í grófum höndum erfiðismannsins verða til fínlegir gripir unnir úr blikkdósum: Kórónur, myndarammar, borð og stólar, og vísa í íslenska víravirkið og búningaskrautið, vafningana, laufin. Þetta eru tilgerðarlausir gripir, blátt áfram og hógværir. Hins vegar er sú tilhneiging að minna ofurlítið á sig, þó á látlausan máta, mála hús sitt í fögrum litum, kallast á við stórkostlega náttúru, umkringd fjöllin, og fossana sem steypast niður hlíðarnar. Ljósmyndirnar eru ígildi nánari tengsla við mannlíf staðarins, tilfærsla reynslu og hugmynda, einhvers konar uppfylling í einsemd, skrásetning daglegra hátta, framvindunnar, einstakra viðburða eða tilviljana sem krydda lífið.
Ásgeir Emilsson á sér ekkert tilsvar í Alþýðulist Íslands um verklag og efnisnotkun, en erlendis er það mikil og viðurkennd endurvinnsla, einkum í Bandaríkjunum, að búa til skrautmuni og nytjahluti úr blikki, og má kynnast þeirri sögu í bókum og veraldarvef.
Íslendingar leita nú smám saman til upprunans og viðurkenna þá listsköpun sem stendur lund þeirra næst; að skoða yndisleg verk, umfangsmiklar heildir, staka hluti, fagra hugsun. Alþýðulist Íslands er formálalaus lífstjáning fólks, hjartahrein, mótuð úr skírum kjarna sálarlífsins – eins og gullið.
Níels Hafstein
Ekki er tekið á móti stærri hópum en 5 manns í einu. Aðgangseyrir er 500 kr. og rennur hann til uppbyggingar og varðveislu Geirahúss.