Halló, heyrið þið í okkur?! Listasmiðja um loftslagsaðgerðir fyrir ungt fólk

Laugardaginn 22. október fer fram vinnusmiðja fyrir krakka 8 ára og eldri í Skaftfelli.

Smiðjan hefst kl. 10:00 á þriðju hæð Skaftfells og lýkur klukkan 14:00 á sama stað.

Á einhverjum tímapunkti verður farið í gönguferð um bæinn. Boðið verður upp á hádegismat um miðjan dag.

Þátttaka í námskeiðinu er gjaldfrjáls. Skráning á fraedsla@old.skaftfell.is

Í þessari skapandi vinnusmiðju sem er þróuð og leidd af Önnu Margréti Ólafsdóttur og Signýju Jónsdóttur munum við kanna loftslagsmálin í samhengi við nútímann en einnig horfa til framtíðar. Hvað vitum við? Hvað viljum við vita? Er hlustað á áhyggjur okkar? Hvernig mætum við komandi breytingum með hugrekki? Út frá þessum spurningum munum við gera handrit að útvarpsþætti sem verður fluttur í beinni útsendingu á Seyðisfjörður Community Radio 107.1 FM á laugardaginn kl. 13:00. Einnig munum við skapa saman minnisvarða, vörðu, sem mun standa eftir og stækka með árunum og veita jákvæða hvatningu í baráttunni til loftslagsmála.

Anna Margrét Ólafsdóttir myndlistarmaður og Signý Jónsdóttir hönnuður taka höndum saman og leiða krakkana í gegnum daginn. Í gegnum tíðina hafa þær unnið mikið saman, bæði með krökkum sem og með fullorðnum í skapandi vinnu. Þær bjuggu á Seyðisfirði í hitt í fyrra og störfuðu við grunnskólann og leikskólann. Nú kennir Signý við Listaháskóla Íslands og vinnur einnig í LungA Skólanum á Seyðisfirði og Anna Margrét stundar nám í listkennslufræði við LHÍ.

Vinnusmiðjan er studd af Nordic Alliance of Artists’ Residencies on Climate Action (NAARCA), sem Skaftfell er aðili að. NAARCA er samstarfsverkefni sem rannsakar hlutverk gestavinnustofa í leit að aðgerðum í loftslagsmálum. Í tengslum við loftslags fræðslu er rannsakað hvernig listkennsla getur stuðlað að því að vinna gegn loftslagskvíða hjá börnum og valdefla ungt fólk í ljósi loftslags kreppunnar.