Hópur þriðja árs myndlistarnema úr Listaháskóla Íslands dvelja nú á Seyðisfirði og vinna hörðum höndum að sýningu sem opnar í Skaftfelli, Listamiðstöð Austurlands, föstudaginn 26. janúar kl 17.00. Þau dvelja á staðnum í tvær vikur, kynnast fólki og aðstæðum og vinna að list sinni. Þau heimsækja m.a. bræðsluna, fiskvinnsluna, LungA-skólann, vinnustofur listamanna og Geirahús, auk þess að kynnast heimamönnum og sögu staðarins.
Mörg listamannanna eru að vinna með Seyðisfjörð sjálfan, söguna og landslagið, fundið efni af svæðinu, ljósmyndir og málverk af heimamönnum og fjöllum. Eftir sögustund Péturs Kristjánssonar vaknaði t.a.m. áhugi á fjarskiptasögu Seyðisfjarðar og morskóðun. Það stefnir í lifandi flutning á opnuninni með nýstofnuðum Morskór, jafnvel með aðkomu heimamanna. Allir eru hjartanlega velkomnir.
Listafólkið sem tekur þátt eru þau Axel Gústavsson, Bjartur Elí Ragnarsson, Elín Elísabet Einarsdóttir, Gabriel Backman Waltersson, Hekla Kollmar, Íris Eva Ellenar-Magnúsdóttir, Ísabella Lilja J. Rebbeck, Ívar Ölmu Hlynsson, Katla Björk, Kata Jóhanness, Ráðhildur Ólafsdóttir, Saga Líf Sigþórdóttir og Tómas van Oosterhout
Sýningin er hluti af tveggja vikna dvöl nemanna á Seyðisfirði undir leiðsögn Gunnhildar Hauksdóttur myndlistamanns, sem dvaldi sjálf á Seyðisfirði árið 2002 ásamt samnemendum sínum í LHÍ þegar sambærileg vinnustofudvöl var haldinn í fyrsta sinn undir handleiðslu Björns Roth. Eins og fleiri listamenn sem heimsækja Seyðisfjörð tók hún ástfóstri við staðinn og hefur verið tíður gestur síðan.
Mikil hefð er fyrir samstarfi myndlistarnema LHÍ við Skaftfell en á árunum 2002-2018 var Vinnustofan Seyðisfjörður haldin átján sinnum á vegum Dieter Roth Akademíunnar fyrir útskriftarnema úr myndlistadeild Listaháskóla Íslands. Alls tóku 193 nemendur þátt og hafa margir þeirra í kjölfarið snúið aftur og unnið að margvíslegum verkefnum í samvinnu með Skaftfelli s.s. tekið þátt í sýningum og öðrum listviðburðum eða komið að námskeiðahaldi tengdum sjónlistum.
Sýningin er opin 12.00 – 16.00 mánudaga, þriðjudaga, fimmtudaga og föstudaga.