Home » 2010

Björn Roth

Laugardaginn 27. nóvember 2010 kl. 16:00 opnar Björn Roth sýningu á verkum sínum í aðalsal Skaftfells. Björn sýnir ný málverk.

Björn Roth fæddist í Reykjavík 1961. Björn stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og starfaði náið með föður sínum, Dieter Roth, á árunum 1978 til 1998 er Dieter lést. Björn tilheyrir þeirri kynslóð íslenskra listamanna sem spretta úr viðskilnaði við hefðbundnar aðferðir og efnisnotkun í myndlist. Nýlistadeildin í Myndlista- og handíðaskólanum var einskonar stökkpallur út í konseptið, nýjamálverkið og nýbylgjuna og pönkið. Björn hefur starfað jöfnum höndum við myndlist, kennslu og sýningastjórn og hefur meðal annars unnið mikið í þágu Skaftfells allt frá upphafi.

 Björn Roth – eftir Guðmund Odd Magnússon
Ég þykist vita að Birni Roth líði best í náinni snertingu við náttúruna, helst úti í góðri veiðá með flugustöng. Ef maður vill kynnast sál hans og myndlist í sínu besta formi þarf að hafa þetta í huga finnst mér. Það er þessi nálgun og nálægð við náttúruna sem sést svo vel í verkum hans. Formin koma þaðan. Verkin eru ekki spegilmynd af náttúrunni heldur eins konar opnun inn í hana. Þar er næmi hans. Við tilheyrum sömu kynslóð þó hann sé ívið yngri en ég. Hann stoppaði stutt í Myndlista- og handíðaskóla Íslands en þar kynntumst við þó. Björni hafði gefið út plötu „Freddy and the Fighters“, það var ólga og uppgjör í gangi, uppgjör við kynslóð sem vildi halda að okkur efninu en ekki andanum. „Í hvaða efni vinnur þú?“ var algeng spurning. Menn sem tóku þetta alvarlega sögðust vinna með kopar og fara aðeins út í járn. Þetta hét alltaf að „vinna með“ efni. Það var búið að stofna nýlistadeildina sem viðspyrnu gegn þessu en jafnvel þar urðum við þreyttir á kennurum okkar. Umræðan var orðin of vitsmunaleg og við það að gerilsneyðast. Við vildum vinna með tilfinningar eða gátum ekki annað. Við vildum vinna með skítinn. Sameiginlegur vinur okkar orðaði það svo að „við fílósóferum aðeins með höndunum“. Við höfðum beinan aðgang að því sem var að gerast í heimslistinni á þessum tíma. Björn meira en við auðvitað. Við gerðum LP plötu eða tólftommu vinyl plötu „Summer music“ sem Björn tók upp á Bala. Við kynntumst Bernd Koberling sem þá var einn af þýsku nýbylgju-málurunum, en Bernd varð Birni náinn og kenndi honum ýmislegt. Við kynntumst og unnum með Hermanni Nitsch einum fremsta gjörningameistara listasögunnar. Í þessu andrúmslofti var gjörningahópurinn BruniBB stofnaður. Þar var Björn Roth fremstur í flokki. Hljóðheimur, ekki alltaf fagurraddaður en tilfinningaþrunginn, var hluti af þessu. Lögreglan var nálæg að ég held á flest öllum tónleikum Brunans og skipti sér a.m.k. af tveim þeirra. Þetta var tími pönksins og primitífisma, tími hráleikans, grunnforma, kraftmikilla og hrárra tilfinninga fyrst og fremst. Gjörningur BrunaBB í Nýlistasafninu er einn af hápunktum hinnar merku heimildakvikmyndar „Rokk í Reykjavík“ eftir Friðrik Þór Friðriksson. Þarna á fyrrihluta níunda áratugarins sprettur nýja málverkið fram samhliða nýbylgjunni og pönkinu. Það er sagt að sjaldan hafi eins margir farið að mála á jafn stuttum tíma. En það voru fáir sem lifðu það af. Björn var föður sínum styrkur á næstu árum og pródúserar og tekur beinan þátt í list hans og á kannski meiri í henni en margur áttar sig á. Hann hélt þó alltaf tryggð við okkur félaga sína og sýndi í Rauða húsinu á Akureyri fyrst 1980, sýningu sem var kölluð Project ’80. Sýningin varð landsfræg því Flosi Ólafsson skrifaði vikuskammt í Þjóðviljann. Titillinn var „Operation bullshit“. Björn sýndi ásamt Ómari Stefánssyni árið eftir í Rauða húsinu en þeirri sýningu var hent út. Hún gekk of nærri Akureyringum. Project sýningunum var haldið áfram í Nýlistasafninu og í Hveragerði. Björn sýnir svo strax árið 1999 í Skaftfelli með Bernd Koberling og árið eftir er Roth Akademían stofnuð þar sem Björn hefur verið innsti koppur í búri. Björn hefur í æ ríkari mæli fetað eigin slóðir í myndgerð sinni. Jarðvegurinn sem hann vex úr og tilheyrir leynir sér auðvitað ekki. Sá jarðvegur er að stórum hluta austfirskur. Seyðisfjörður og Loðmundarfjörður eru stór hluti hjarta hans. Myndir Björns eru hjarta hans og nálægð við þá náttúru.

Goddur