Tónlistargjörningur föstudaginn 6. júlí kl. 18:00 í Bókabúð-verkefnarými
Tónlistargjörningurinn ART BOOK ORCHESTRA samanstendur af bókverkunum ‘Affected as only a human being can Be’, sem eru 10 talsins, og inniheldur hvert og eitt þeirra einstakt hljóðverk. Á meðan á gjörningum stendur “spilar” listamaðurinn Konrad Korabiewski á bókverkin eins og rafmagnshljóðfæri væri að ræða. Auk þess verða til sýnis í formi innsetninga tvö myndbands- og hljóðverk, Culture Users (2010) og Tolerated Residence (2009).
Hljóð- og bókverkið ‘Affected as only a human being can Be’ er unnið í nokkra miðla og bræðir saman hljóðlist, tónlist, myndlist og bókverk. Verkið er unnið samstarfi við listamanninn Litten.
Konrad Korabiewski (DK / PL) er tilrauna og margmiðla listamaður. Í verkum sínum reynir hann að koma til skila innihaldi, stemmningu og upplifun í gegnum hlustun. Til að mynda skoðar hann nýjar leiðir í gegnum tónlist til að tjá heimspekilegar skoðanir og listræna hugmyndafræði. Í dag vinnur Konrad, ásamt félögum sínum, að því að stofna Skála – miðstöð fyrir hljóðlist og tilraunakennda tónlist á Seyðisfirði.
Gjörningurinn er hluti af sumarsýningarröð Skaftfells 2012 Reaction Intermediate.