Brenglað, bogið, bylgjað – Ragnheiður Káradóttir & Sara Gillies

27. nóvember 2021 – 30. janúar 2022 í sýningarsal Skaftfells

Opnar 27. nóvember kl. 16:00-18:00.

Opnunartími mán-fös kl. 12:00-20:00, lau-sun kl. 16:00-20:00.

Aðgangur í gegnum bistróið á fyrstu hæð.

Leiðsögn með listamönnunum fer fram sunnudaginn 28. nóvember kl. 13:00.

Á samsýningunni Brenglað, bogið, bylgjað gefur að líta annars vegar málverk eftir Söru Gillies (EN/IS) og hins vegar þrívíð gólfverk eftir Ragnheiði Káradóttur (IS). Verkin vinna þær í sitt hvoru lagi en eiga það sameiginlegt að sköpunarferli beggja einkennist af leikgleði auk þess sem þær vinna báðar út frá innsæi og í samtali við efniviðinn sem leiðir þær áfram að niðurstöðu. 

Verk Ragnheiðar gefa mynd af afmörkuðum, fjarstæðukenndum heimum. Þau samanstanda af skúlptúrum sem virðast við fyrstu sýn kunnuglegir, en reynast við nánari skoðun erfiðara að henda reiður á og skilgreina en ætla mætti. Samskeyting þekktra forma og efna mynda framandi hluti sem vísa í ólíkar áttir og skapa fjölbreytta skírskotun. Ragnheiður sækir sér innblástur í afþreyingarheima svo sem mini-golfvelli eða þrautabrautir og manngerð fyrirbæri eins og heimilisbúnað. Hún einangrar hluti frá tilgangi sínum, einfaldar þá og rannsakar út frá fagurfræðilegum sjónarmiðum. Nytjahlutir eru settir í nýjan búning og dauðir hlutir oft persónugerðir. Eftir standa abstrakt hlutir sem hafa tapað samhengi sínu og upphaflegum tilgangi, en kunnugleikinn opnar inn á ólíkar og öfugsnúnar skilgreiningar og vangaveltur; er hér um að ræða barnaleikfang eða kynlífsleikfang? Ímyndaðar hliðarvíddir Ragnheiðar skapa eins konar rof á veruleikanum, á látlausan, nákvæman og margræðan hátt.

Verk Söru búa bæði yfir persónulegum og landfræðilegum skírskotunum og í nýlegum verkum sínum vinnur hún við að endurupphugsa líkamann, sér í lagi kvenlíkamann, og tengja hann við náttúruna. Hvoru tveggja eru marglaga fyrirbæri en í verkum Söru verður til ákveðinn samruni náttúru og líkama sem hún tvinnar saman við eigin brotakenndar hugsanir, minningar og reynslu. Vinnuferlið er stór hluti af verkum Söru sem er oft langt og strangt þar sem hún málar og endurmálar, brýtur upp og endurbyggir, ýtir við mörkum, togar og teygir. Þetta ferli felur í sér vinnu með innsæi, hreyfingu og viðbragð og notar hún fyrri málningarlög til að leiða sig áfram við næstu yfirferð. Að vissu leyti má segja að nálgun Söru á málverkið sé skúlptúrísk þó að hún haldi sér innan ramma strigans, en gróf áferð málverkanna og formin í verkunum ýta jafnvel undir þessa tilfinningu. Hvert verk gengur í gegnum margar mismunandi lagskiptar umbreytingar þar sem hún vinnur á mörkum hins hlutbundna og huglæga í leit að jafnvægi á milli þess leikglaða, frumstæða og leyndardómsfulla.

Saman skapa verk Söru og Ragnheiðar snertifleti andstæðna en einnig líkinda en við það verður til spennandi samtal og núningur. Á sýningunni Brenglað, bogið, bylgjað leiða þær áhorfandann sífellt lengra inn í draumkenndan og óhlutbundinn heim; heimur sem er í senn kunnuglegur en lýtur jafnframt að sínum eigin lögmálum.

Sýningarstjóri: Hanna Christel Sigurkarlsdóttir

 

Ragnheiður Káradóttir (f. 1984) útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2010 og lauk meistaranámi í myndlist vorið 2016 frá School of Visual Arts í New York. Ragnheiður hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér á landi sem og erlendis og er annar helmingur listatvíeykisins Lounge Corp., sem miðar að því að sýna myndlist í óhefðbundnum rýmum. Ragnheiður hefur m.a. verið með einkasýningar í Listasafni Reykjavíkur og Harbinger, gert samstarfssýningar í Kling & Bang og á Satellite Art Show í Miami, og tekið þátt í samsýningum í Gerðarsafni og Ásmundarsal. http://ragnheidurkaradottir.com

Sara Gillies (f. 1982) fæddist í Kingston-Upon-Thames í Englandi og býr og starfar í Stykkishólmi. Hún útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Winchester School of Art og lauk meistaranámi í myndlist 2007 frá Royal College of Art, London. Sara hefur sýnt víða m.a. í Harbinger, Reykjavík; Horse and Pony, Berlin; Gallery Beast Turfs Projects, London; Royal College of Art, London; og tekið þátt í myndlistarhátíðinni Sequences.