Home » 2015

Eyborg Guðmundsdóttir & Eygló Harðardóttir

Sýningarsalur, 31. október 2015 – 13. febrúar 2016
Sýningarstjóri Gavin Morrison

Eyborg Guðmundsdóttir (f. 1924 – d. 1977) og Eygló Harðardóttir (f. 1964) eru listamenn af mismunandi kynslóðum. Verk beggja eru abstrakt, miðill Eyborgar er fyrst og fremst málverkið á meðan þrívíddin er ríkjandi í verkum Eyglóar.

Eyborg Guðmundsdóttir, Án titils, 1975. Í eigu Listasafns Reykjavíkur

Í verkum Eyborgar er að finna afgerandi geómetrísk form og bjarta liti sem notaðir eru til að kalla fram villandi sjónrænar þversagnir. Þrátt fyrir að hafa reglulega heimsótt Dieter Roth á vinnustofuna hans og numið hjá Victor Vasarely op-listamanni þegar hún dvaldi í París, fann hún verkum sínum eigin farveg og ná þau út yfir áhrif þeirra. Þau eru í ætt við op-listastefnunna ásamt því að bera ákveðna eiginleika úr pop-list með því að vísa til nútímans og efnisheimsins. Málverkin gætu virst einföld en hún beitti fyrir sig snilldarlegri myndbyggingarkænsku til að galdra fram myndhverfingar og þrívídd á myndfletinum. Í samhengi við það mætti hugsa sér samsetningar Eyglóar sem þrívíðar skissur eða módel af hugmyndum fyrir rýmið í abstrakt málverkum. Á meðan málverk Eyborgar virðast hlutlaus og með afdráttarlausan ramma eru verk Eyglóar opnari, þau eru íhugul og nota efniskennd til gefa í skyn ímynduð rými.

Ljósmynd: Eygló Harðardóttir

Eygló beinir sjónum sínum að virkni lita og áhrifum þeirra á hvernig við skynjum hluti. Val hennar á efnivið og nálgun við gerð verkanna gefur þeim sérstakt yfirbragð nándar. Í vissum skilningi túlka verk hennar einhverskonar hugmynd um hverfulleika, þ.e.a.s. hún notar þann efnivið sem hendi er næst og setur lauslega saman til að koma viðfangsefninu markvisst til skila. Þannig mætti sjá verk hennar sem uppástungur um mögulega tilveru frekar en þá einu réttu. Þessi hráu form virðast setja spurningamerki við hluthyggjuna í verkum Eyborgar. Þau gefa til kynna að raunheimurinn fylgi ekki hugmyndafræði abstrakt myndmáls.

Þessi sýning teflir fram tveim bálkum verka sem fást við eðli abstrakt myndbyggingar og gefa til kynna með hvaða leiðum form öðlast merkingu og vægi. Með því að setja verk Eyborgar í samhengi við verk Eyglóar kemur í ljós hve viðfangsefni hinnar fyrrnefndu eru enn viðeigandi hjá starfandi listamönnum í dag. 

Æviágrip

Eyborg Guðmundsdóttir var fædd á Ísafirði árið 1924. Hún nam myndlist í París frá 1959-1963 en hún staldraði stutt við í skóla, líkaði ekki vistin, hætti og nam sjálfstætt upp frá því, m.a. hjá Victor Vasarely op-listamanni. Eyborg sýndi víða um Evrópu með hópi áhrifamikilla listamanna sem kölluðust Group Mesure, hún aðhylltist geómetríska abstrakt í málverki. Hún hélt sína fyrstu einkasýningu í Bogasal Þjóðminjasafnsins árið 1965, ári síðar sýndi hún í Mokka og hangir eitt verka hennar enn uppi í glugganum þar. Ferill Eyborgar spannaði aðeins 15 ár og síðasta sýning hennar var í Norræna húsinu árið 1975. Hún lést tveim árum síðar í júní 1977, 52 ára að aldri.

Eygló Harðardóttir fæddist í Reykjavík árið 1964. Hún nam við Akademie voor Beeldende Kunst en Industrie, í Enschede, Hollandi og hlaut Meistaragráðu í Kennslufræðum við Listaháskóla Íslands í Reykjavík. Á meðal einkasýninga hennar eru sýning í Harbinger árið 2015, í Nýlistasafninu í Reykjavík árin 1994, 1998 og 2002, Listasafn Reykjavíkur, Ásmundarsafn árið 2003, Listasafn ASÍ í Reykjavík 2007 og 2013. Verk eftir Eygló eru varðveitt í Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Nýlistasafninu, Ríkisútvarpinu og menningarsetrinu Kultuurikauppila í Finnlandi.

Samstarfsaðilar

Sýningin er unnin í samstarfi við Listasafn ÍslandsListasafn Reykjavíkur, Safn og Arion banka

Styrktaraðilar

Sýningin er styrk af Uppbyggingarsjóði Austurlands og Myndlistarsjóði.