Home » 2008

HlÍÐAR / SLOPES

Sýningarstjóri er Guðmundur Oddur Magnússon.

Næstkomandi laugardag kl 14.00 verður opnuð sumarsýning Skaftfells, miðstöðvar myndlistar á Austurlandi. Sýnd verða ljósmyndaverk eftir Kristleif Björnsson. Sýningin nefnist „Hlíðar“.

Kristleifur er fæddur í Reykjavík 1973 en er alinn upp á Egilsstöðum. Hann lærði myndlist og ljósmyndun í Leipzig í 8 ár og útskrifaðist frá prófessor Timm Rautert árið 2003. Eftir það hafði Kristleifur aðstöðu í Klink & Bank við Brautarholt og síðar í Komplexinum við Skipholt í Reykjavík. í byrjun þessa árs fluttist Kristleifur til Berlínar þar sem hann hann býr og rekur stúdíó í Kreuzberg.

Um þessar mundir hanga tvö stór verk eftir Kristleif í TATE Modern í London á ítarlegri sýningu um sögu ljósmyndunar í gegnum portrett-ljósmyndir. Sú sýning heitir Street & Studio og hangir uppi út ágústmánuð. Aðstoðarsýningarstjóri þeirrar sýningar, Florian Ebner, skrifar m.a. þetta um „Hlíðar“, sýningu Kristleifs í Skaftfelli:

„Kristleifur Björnsson hefur tekið ljósmyndir á Norð-Austurlandi í hartnær 10 ár. Þótt myndirnar séu teknar á svo löngum tíma sýna þær hvorki fjölbreytileika jarðfræðilegra náttúrumyndana né umbreyta þær náttúrunni í ósnortnar óbyggðir eins og búast mætti við. Kristleifur beinir hins vegar athygli sinni að afmörkuðu smáatriði, sérstökum jarðhniksaðstæðum fjalla. Myndirnar sýna einfaldlega hlíðar.

Myndirnar eru stundum teknar með ögn upplyftu sjónarhorni og sýna hlíðarnar í hlutlausu og þokukenndu ljósi; ekkert drama er í þeim að finna. Þær eru hvorki baðaðar sólskini né stillt upp mót himni. Hvergi bólar á hetjulegu sjónarhorni hins einreikula ferðamanns sem vill eigna sér náttúruna. Hlíðarnar eru settar fram án nokkurrar upphafningar á afréttum.

Árum saman hefur Kristleifur stundað reglulegar fjallaferðir og kalla þær fram hin seríukenndu einkenni; sífellt ný blæbrigði flatneskjunnar. Þessi nálgun hefur einnig persónulegar og íhugular hliðar þótt Kristleifur vinni í list sinni ekki með svokallað land-art þar sem ferillinn sjálfur er iðulega listverkið. Fremur má segja, að Kristleifur leiti að myndefni sem þegar er í til huga hans og fyrirfinnst einungis í landslaginu þarna. Það er leitin að sérstökum eiginleikum formsins sem helgast af reynslu manns af uppruna sínum.“

Sýning Kristleifs stendur fram á verslunarmannahelgi og lýkur 3. ágúst.