Mánudaginn 25. febrúar, kl. 19:30 – 21:00, Herðubreið. Sýning stenður til 27. febrúar og er opin daglega kl. 10:00 – 18:00.
Korkimon – Melkorka Katrín Ingibjargardóttir (IS) – hefur dvalið í gestavinnustofu Skaftfells síðastliðna tvo mánuði og mun nú ljúka dvöl sinni með sýningu á nýjum verkum í gallerírými í Herðubreið.
Korkimon er listakona frá Reykjavík, fædd 1995. Hún útskrifaðist frá Sarah Lawrence College í New York með áherslu á sjónlistir, listasögu og kynjafræði. Strax eftir útskrift hélt hún tvær einkasýningar og tók þátt í fjölda samsýninga í Reykjavík. Korkimon vinnur með ólíka miðla, m.a. samklipp, skúlptúra og teikningu.
Í heimi þar sem yfirflæði upplýsinga á sér stað valhoppar hún frá einni sérlega áhugaverðri holunni yfir að þeirri næstu, með bestu áætlunina í farteskinu: enga áætlun. Endanlega niðurstaðan alltaf mettuð af metnaði og ófyrirsjáanlegri merkingu, náttúrulega holdug. Á hverju kvöldi um kl. 22:00 byrjar hún að velta því fyrir sér hvort kaffi sé grundvallar mannréttindi.