Home » 2009

Leiðréttingar

Þórunn Hjartardóttir opnar sýningu í verkefnarými Skaftfells á Seyðisfirði fimmtudaginn 20. ágúst, en hún er gestalistamaður þar þennan mánuð. Verkefnarýmið er gamla bókabúðin við Austurveg, en þar hefur Þórunn unnið stað- og tímabundna innsetningu sem heitir Leiðréttingar.

Þórunn notar bókbandslímband til að mála geómetríu inn í rýmið. Límbandið, sem er stundum kallað kjölband, er úr striga og aðeins framleitt í nokkrum litum og breiddum og gjarnan notað til að gera við bókakili. Þórunni hefur áður límt í sýningarýminu Suðsuðvestur í Reykjanesbæ.

Ég byrja á að skoða arkitektúrinn og rýmið vel og vandlega, hvað einkennir það? Hvað finnst mér ástæða til að draga fram og undirstrika? Vil ég reyna að breyta rýmisskynjuninni, notfæra mér sjónræn áhrif og þrívídd? Verkefnarýmið er ótrúlega samhverfur (symmetrískur) salur og það sem ég ákvað þar strax var að ganga lengra með samhverfuna; leiðrétta svolítil frávik. Mér finnst verðugt verkefni að gera sem mest úr sem minnstu og reyni að ná úr því einhverju sem bætir við rýmið. Svo er tengingin við striga og bækur frekar ljóðræn.