Tónleikarnir fara fram í Heima að Austurveg 15, í fyrrum verslunarrými Pálínu Waage, og hefjast kl. 15:00.
Tónlistarmaðurinn Prins Póló mun halda sóló tónleika á Seyðisfirði næstkomandi laugardag. Þetta er síðasti viðburðurinn sem fer fram í tengslum við sumarsýningu Skaftfells RÓ RÓ en sýningin stendur út september.
Til stóð að tveggja manna hljómsveitin Létt á bárunni myndi koma fram en hún getur því miður ekki látið verða af tónleikunum. Prinsinn mun því stíga á stokk í hennar stað og jafnvel taka nokkur lög frá frægðarför hljómsveitarinnar Létt á bárunni.
Báðar hljómsveitir voru stofnaðar á Seyðisfirði veturinn 2009 þegar aðstandendur, Svavar Pétur Eysteinsson og Berglind Häsler, voru búsett í firðinum. Létt á bárunni var sameiginlegt verkefni þeirra beggja en Prins Póló var sólóverkefni Svavars sem brátt þróaðist í fullskipaða hljómsveit.
Létt á bárunni gaf út eina plötu, Sexí árið 2009, og málverk eftir Seyðfirska alþýðulistamanninn Ásgeir Jón Emilsson prýðir kápuna. Fyrsta plata Prins Póló var Einn heima, 2009, og í kjölfarið kom út Jukk, 2010. Á seinni plötu Prinsins er að finna hið dásamlega lag „Skaftfell Special” sem er óður til pizzu á matseðli Skaftfell Bistró og sumarsmellinn árið 2011 „Niðrá strönd”. Nýjasta plata sveitarinnar kom út fyrir stuttu og heitir Sorrí.
Vefsíða hljómsveitarinnar: www.prinspolo.com
Áður en tónleikarnar hefjast munu meðlimir í Heima samstarfshópnum opna sýningu á verkefnum sem þau hafa verið að þróa á síðustu vikum. Sýningin opnar kl. 14:00.
Hluti af sumarsýningu Skaftfells RÓ RÓ.