Marta María lærði við málaradeild Listaháskóla Íslands og lauk MA Fine Art við Goldsmiths College í London árið 2000. Einnig hefur hún numið teiknimynda- og hreyfimyndagerð sem hún notar líka í sinni myndlist. Sem dæmi sýndi hún nýlega hreyfimynda-altaristöflu í samstarfi við Arnald Mána Finnsson, á sýningunni Orð Guðs á Listasafni Akureyrar. Hún myndskreytti og hannaði á síðast ári ljóðabók Sigurbjargar Þrastardóttur, To bleed straight.
Marta sýndi nýlega málverk og teikningar í Gallerí Ágúst. Málverk hennar eru samsett, lagskipt og tákna hvert sinn heim. Verkin eru á mörkum þess að vera teikningar og málverk. Flest eru þau óhlutbundin og oft birtast endurtekin form, munstur og stundum mandölur í bland við fljótandi lit.
Á Vesturvegg sýnir Marta ný málverk. Verkin eru unnin með akríl á striga en geometria, línur og form ráða ríkjum. Sum eru lagskipt þar sem glittir í óljósan bakgrunn en önnur einfaldari og eru eins konar teikningar á hörstriga.