Einkasýning með verkum eftir Sigurð Atla Sigurðsson.
Sýningarstjóri Gavin Morrison.
Sigurður Atli Sigurðsson (f. 1988) er óvanalega athugull á tilviljanakennd augnablik og umgjörð nútímalífs sem skilja eftir sig ummerki um tilvist okkar.
Suðurveggur Skaftfells er þakinn sjötíu og fimm innrömmuðum teikningum. Grunnlitir þeirra og geometrísk framsetning gætu vísað í strangflatarlist eða naumhyggjulist – list sem varpar rýrð á handverk og handbragð. En innan hvers ramma má sjá krot. Hér er um að ræða virkilega einfalda athöfn sem er framkvæmd á meðan maður er upptekinn við eitthvað annað eða í hagnýtum tilgangi til að fá penna til að virka. Þessar athafnir jaðra við að verða að teikningu, áður en ásetningur verður til.
Annars staðar í sýningarsalnum eru ljósmyndir sem mynda seríu. Þær hafa formlega myndbyggingu og eru teknar af fagljósmyndara en sjónarhornið er óvenjulegt þar sem viðfangsefnin snúa baki í myndavélina. Aðeins bakhluti höfuðsins er sýnilegur og glittir í vangasvipinn. Sigurður hefur nýtt sér hefðir innan hárgreiðsluiðnaðarins, myndir sem má finna á veggspjöldum hárgreiðslustofa og sýna mismunandi stílbrigði hárgreiðslu. Sem slíkur er einstaklingurinn á ljósmyndinni ekki beint viðfangsefni ljósmyndarans.
Lokahnykkur sýningarinnar – nokkurs konar greinarmerki – er prent af skuggamynd fjalls með orðinu „ok” fyrir neðan. Það gæti skilist sem leiðandi spurning, fyrirspurn um velferð okkar eða ávarp okkur til hughreystingar. En orðið er einnig nafn á íslenskum jökli sem er nánast horfinn. Ok er ekki ok. Með því að gefa hlutum nafn, einum af grundvallarþáttum mannlegrar hegðunar sem hjálpa okkur að skilja heiminn, opnum við óvænt fyrir nýja merkingu.
Æviágrip
Sigurður Atli Sigurðsson er búsettur í Reykjavík. Hann útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands árið 2011 og fór í kjölfarið í framhaldsnám til Frakklands. Þar kláraði hann MA frá École Supérieure des Beaux-Arts de Marseille. Sigurður hefur verið ötull í sýningarhaldi frá útskrift og ber þar helst að nefna: Do Disturb – Palais de Tokyo, París 2016, Subversion of the Sensible – Fabbrica del Vappore – Mílanó, 2014, Feldstarke – Kyoto Art Center – Kyoto, Japan, 2014 og Sleeper Horses – í samstarfið við Erin Gigl (US) – Gallerí Úthverfa, Ísafjörður, 2014. Undanfarið hefur Sigurður Atli stundað kennslu við Myndlistaskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands þar sem hann hefur umsjón með prentverkstæði skólans.