Í tengslum við opnun sýningar á verkum Eyborgar Guðmundsdóttur og Eyglóar Harðardóttur í Skaftfelli, laugardaginn 31. október, var sjöunda fræðsluverkefnið sem Skaftfells hleypt af stokkunum.
Skaftfell hóf árið 2007 markvisst fræðslustarf sniðið að þörfum grunnskólanna á Austurlandi. Skaftfell hefur síðan þá boðið upp á sex verkefni sem fjalla um myndlist með einum eða öðrum hætti til að efla listgreinakennslu í fjórðungnum.
Að þessu sinni var myndlistarkonan Karlotta Blöndal fengin til að hanna og stýra farandlistsmiðju sem hún nefndi Skynjunarstofa um liti og form. Fyrstu tvær vikurnar í nóvember fór Karlotta á milli grunnskóla á Austurlandi, alla leið frá Vopnarfirði til Djúpavogs, til að kenna smiðjuna. Verkefnið gaf nemendum innsýn í myndlist Eyglóar og Eyborgar og fengu þau um leið að kynnast aðferðum við að rannsaka eiginleika lita og forma. Gerðar voru tilraunir með litablöndun þar sem bæði var notast við málningu og ljós. Skoðuð voru ströng geometrísk form í samspili við lífrænt form trjágreina og hvernig hreyfing hefur áhrif á upplifun okkar á form og liti.
Listsmiðjan Skynjunarstofa um liti og form stóð öllum grunnskólunum á Austurlandi til boða þeim að kostnaðarlausu og var styrkt af Uppbyggingarsjóði Austurlands, Barnavinafélaginu Sumargjöf og Hertz bílaleigu.