Opnun föstudagur 12. febrúar, kl. 18:00-20:00, Skaftfell sýningarsalur.
Listamannaspjall laugardagur 13. febrúar, kl. 14:00.
Leiðsögn á ensku fimmtudagur 18. mars, kl. 17:00.
Sýningin stendur til 25. apríl 2021. Opið mán-fös kl. 16:00-20:00, lau-sun kl. 16:00-20:00.
Gengið inn um Bistróið á 1. hæð.
Sýningaropnun og listamannaspjall eru hluti af listahátíðinni List í ljósi. Við biðjum alla gesti um að virða reglur vegna Covid-19 þar sem hámarksfjöldi í rými er 20 manns og að bera grímur.
Segja má að myndlistamaðurinn Þór Vigfússon (f. 1954) sverji sig í ætt við naumhyggjulistamenn þar sem verk hans einkennast af einföldum formum og hreinum litaflötum. Efnisval Þórs er nær eingöngu iðnaðarefni á borð við plexigler, mdf, litað gler og ál, en verk hans eru á mörkum þess að vera málverk og veggskúlptúrar þar sem misstórir fletirnir og áferð efnisins talar sig inn í rýmið. Litagleðin í verkum Þórs spilar einnig stórt hlutverk en er samt sem áður fáguð og jarðbundin. Verkin eru ákveðin og afdráttarlaus og einfaldleiki þeirra ber með sér merki um aga og nákvæmni, en við nánari eftirgrennslan er það ekki síður tilfinning, innsæi og gáskafull eftirvænting listamannsins eftir samspili forma, efnis og lita sem ræður för. Það er einmitt á þeim nótum sem samtalið við rýmið og áhorfandann á sér stað og þar hefst ferðalagið þegar rýnt er í verkin.
Verk Þórs hafa undarlega dáleiðandi áhrif hvort sem það er vegna litaðra tvívíðra fleta sem virka á stundum eins og þeir svífi í lausu lofti eða þegar horft er í lagskipt, lituð gler sem endurspegla bæði áhorfandann og rýmið. Glerverkin gera það að verkum að maður upplifir eins og þau séu innlit inn í annan heim. Milli formanna og litanna á sér stað samspil sem ljós og skuggar hafa einnig áhrif á og með hækkandi sól mun þetta samspil skapa breytilegar viðtökur eftir því hvernig birtan magnast. Útgangspunktur verkanna eru form og litir, sem eru í raun grunnundirstaða myndlistar, og verk Þórs eru ekki ætluð að færa okkur konkret merkingu heldur skapa þau fyrst og fremst upplifun á formi og rými. Sú upplifun getur hins vegar búið til innra samtal hjá áhorfendum og verkin verða þá nokkurs konar staksteinar til að stikla á og tengja upplifun okkar bæði út á við en ekki síður inn á við. Einfaldleikinn og samspil efnis, lita og rýmis er til þess fallið að skapa kyrrð og ró á tímum óreiðu sem hefur einkennt litla samfélagið okkar á Seyðisfirði undanfarið og færir okkur ljúflega inn í birtuna sem er framundan og vorið.
Þór Vigfússon er fæddur í Reykjavík árið 1954 og nam myndlist við MHÍ og síðar í Hollandi í Strichting De Vrije Academie í Den Haag. Hann hefur sýnt víða bæði hérlendis og erlendis t.d. Kjarvalsstöðum, Nýlistasafninu, i8 galleríi, Quint Gallery í San Diego og The Chinese European Art Center, Xiamen City í Kína. Þór býr og starfar í Reykjavík og Djúpavogi.
Sýningarstjórar: Hanna Christel Sigurkarlsdóttir og Julia Martin
Ljósmynd: Vigfús Birgisson, i8 gallerí